Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
Múrinn-vefrit um þjóðmál, pólitík og menningu
 

Volapük, veistu það ekki?

Hugsjónin um alheimstungumálið; nýtt, fullkomið og auðlært tungumál sem allir jarðarbúar gætu tileinkað sér og átt þannig snuðrulaus samskipti á jafnréttisgrundvelli á sér langa sögu. Síðustu aldirnar hafa ótal bækur og greinar birst um ágæti hugmyndarinnar og hundruð atorkusamra einstaklinga hafa ekki setið við orðin tóm, heldur hafist handa við að búa til slík tungumál.

Esperantó er langþekktast þessara mála og enn í dag láta milljónir esperantisa um allan heim sig dreyma um að þetta sérviskulega áhugamál muni í framtíðinni tryggja mannkyninu hagsæld og frið.

Þeir sem ólust upp við lestur danskra Andrésblaða eru þó eflaust áhugasamari um að fræðast um furðutungumálið "Volapyk", en á dönsku er talað um að e-ð sé "óttalegt volapyk", í þeirri merkingu að það sé óskýrt eða ruglingslegt. En hver er saga þessa ægilega tungumáls, sem fæstir hafa heyrt getið um en Danir hafa að háði og spotti?

Volapyk heitir með réttu "Volapük" og var fyrsta "alheimstungumálið" til að ná teljandi útbreiðslu. Upphafsmaður þess var þýskur prestur, Johan Martin Scheyler að nafni, en hann hóf trúboð sitt árið 1879. Volapük-hreyfingin var þaulskipulögð og störfuðu fylgismenn hennar í sérstökum félögum, sem veittu viðurkenningarskjöl þeim sem sýnt gátu fram á færni í tungumálinu.

Í lok níunda áratugar nítjándu aldar var gullöld Volapük. Um 300 félög voru starfrækt víðs vegar um veröldina, 1.600 manns höfðu fengið viðurkenningarskjölin eftirsóttu og eitthvað á milli 200.000 og 1.000.000 manna kunnu hrafl í tungumálinu. En gæfan er fallvölt í málaheiminum. Áratug síðar var Volapük útdautt að kalla og virkir fylgismenn voru orðnir innan við 1.000 talsins. Voru þetta vitaskuld vonbrigði fyrir Scheyler, sem dó árið 1912 vonsvikinn maður.

Á fjórða áratugnum virtist landið ætla að fara að rísa á ný, þegar atorkusamir einstaklingar gengu til liðs við hreyfinguna, en valdataka nasista í Þýskalandi gerði þær vonir að engu þegar Hitler bannaði útgáfu rita á málinu. Á þessum árum var þó mikilvæg breyting gerð á uppbyggingu Volapük, þegar bókstafnum "R" var bætt við stafrófið, en Scheyler hafði fellt hann í burtu þar sem talið var að Kínverjar ættu erfitt með að bera hann fram.

Volapük-menn láta þó ekki deigann síga og enn koma út bækur á tungumálinu. Árið 1956 hóf tímaritið Volapükagased pro Nedanapükans útgáfu sína og árið 1979 bættist hið vandaða Vog Volapüka við blaðaflóruna. Það er því nóg að lesa fyrir hina þrjátíu virku félaga í Volapük-hreyfingunni, en auk þeirra munu nokkrir námsmenn leggja stund á þetta merka tungumál við kvöldskóla einn í Þýskalandi.

Að lokum er rétt að vara lesendur Múrsins við því, ef svo kynni að fara að þeir kæmust í tæri við Volapük-sinna, að fara að ræða um Esperantó. Áhugamenn um Volapük, eins og raunar fylgismenn flestra annarra tilbúinna alheimstungumála, hata Esperantista út af lífinu. Þeir fullyrða að Esperantistar séu hinir mestu lygalaupar, sem haldi því fram að um tvær milljónir jarðarbúa tali tungumálið, þegar nokkrir tugir þúsunda væru nær lagi. Þá fullyrða Volapük-menn að fjölmiðlar gangi erinda Esperantista, með því að kynna tungumál þeirra til sögunnar sem eina raunverulega alheimsmálið. Þetta sé eitt dæmi af mörgum um illt innræti þeirra örmu þræla er leggja stund á Esperantó.

sp


Prenta grein   Senda grein   Tilvísunar slóð



Leit   Eldra efni   Um Múrinn
Forsíða   Efst á síðu
Rss straumur